Kjarninn

Breytt samfélagsgerð

Eldra fólk lifir lengur og er hraustara en nokkru sinni fyrr og á næstu 15 árum mun samfélagið taka miklum breytingum. Hlutfall fólks 65 ára og eldra mun aukast um rúm 40% á meðan hlutfallsleg fjölgun fólks á aldrinum 15 - 64 ára verður aðeins um 30%. Þjónustan þarf að þróast í takt við breytta samfélagsgerð.

Fjölga þyrfti hjúkrunarrýmum um 100 á ári fram til ársins 2040 til að mæta þörfinni. Það er því mikil þörf á að skapa fjölbreyttar lausnir og úrræði til að hlúa að þessum stóra hópi fólks, bæði fyrir þau sem þurfa mikla þjónustu og umönnun og einnig fyrir fólk sem kýs sjálfstæða búsetu.

Hlutfall 67 ára og eldri 21% fyrir 2050

Hlutfall fólks 67 ára og eldra af mannfjölda var 12,4% árið 2020 og reiknað er með að það verði 19,2% árið 2040. Mannfjöldaspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að hlutfall 67 ára og eldri verði komið upp í 21% árið 2050.

Meðalævi fólks er að lengjast

Í lok 2020 var meðalævin 84,1 ár hjá konum en því er spáð að hún verði 88,7 ár árið 2069. Meðalævilengd karla var 80 ár í lok 2020 en verður 84,4 ár árið 2069.

Eldra fólk á vinnumarkaði

Fólk á aldrinum 55-74 ára er stærri starfandi hópur en áður. Þessi hópur mældist 17% af öllu starfandi fólki árið 2003, en var orðinn 22% árið 2023. Sama þróun á sér stað í öðrum Evrópulöndum.

Heilsuefling aldraðra er mikilvæg

Rannsóknir sýna að hreyfing gegnir lykilatriði fyr­ir heilsu og vellíðan á öll­um ævi­skeiðum, ekki síst á efri árum. Hreyf­ing stuðlar auk þess að betri and­legri og lík­am­legri heilsu og ýtir und­ir fé­lags­leg sam­skipti og almenna virkni. Auðvelt aðgengi að aðstöðu til hreyfingar eykur líkurnar á að aldraðir nýti sér þjónustuna.

Heilbrigð öldrun

Breyting á aldurssamsetningu þjóðar á sér stað á mörgum stöðum í heiminum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sameinuðu þjóðirnar tileinka áratuginn 2021-2030 heilbrigðri öldrun, og skilgreina góða heilsu sem líkamlega, andlega og félagslega vellíðan, en ekki ein­ung­is það að vera laus við sjúk­dóma og ör­orku.

Grundvallarhugtakið sem unnið er með er virknigeta (e. functional ability) sem snýst um getu fólks til að uppfylla grunnþarfir sínar, getu til þroska, lærdóms, hreyfingar og ákvarðanatöku ásamt getunni til að viðhalda mannlegum tengslum og leggja sitt af mörkum til samfélagsins.

Forvarnir og heilsuefling aldraðra eru því mikilvægir þættir sem bæta lífsgæði einstaklinganna og seinka þörf fyrir heilbrigðisþjónustu.
Góð andleg heilsa er mikilvæg á efri árum. Fimmti hver Íslendingur 67 ára og eldri upplifir sig stundum eða oft einmana. Einmanaleiki getur haft alvarlegar afleiðingar og félagsleg einangrun getur haft bæði líkamleg og andleg áhrif. Samvera við annað fólk, þátttaka í félagsstarfi og gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu getur skipt miklu máli í því að koma í veg fyrir einmanaleika á efri árum.

Breytt samfélagsmynd (spá 2023)

Lífsgæðakjarnar DAS



Grundvallarþættir heilbrigðrar öldrunnar eru grunnurinn í þróun lífsgæðakjarna DAS, sem Sjómannadagsráð hefur þróað í áratugi. Lífsgæðakjarnar eru ein leið til þess að koma til móts við þarfir eldra fólks á þeirra forsendum. Lífsgæðakjarni er hugtak sem nær yfir húsnæði, aðbúnað og þjónustu þar sem eldra fólk hefur aðgang að starfsemi sem bætir lífsgæði þess.

Kjarninn er staðsettur innan bæjarfélags og býður upp á fjölbreytta þjónustu sem stuðlar að auknu öryggi og meiri vellíðan eldra fólks. Grunnhugsunin er sú að eldra fólk er ekki byrði á samfélaginu heldur hefur virði og er virkur hópur samfélagsins.

Sjómannadagsráð rekur átta starfsstöðvar með heimilum Hrafnistu og leiguíbúðum DAS íbúða, staðsettar í 5 sveitarfélögum. Á Hrafnistu búa um 800 íbúar, þar starfa um 1700 starfsmenn og húsakostur um 100 þúsund fermetrar.

Hugmyndafræði Hrafnistu

Hrafnistuheimilin gegna forystuhlutverki þegar kemur að þjónustu og umönnun eldri borgara. Hrafnista vinnur stöðugt að því að veita framúrskarandi öldrunarþjónustu svo íbúar, þjónustuþegar og aðstandendur upplifi öryggi, traust og vellíðan.

Á Hrafnistu er lögð áhersla á heimilislegt umhverfi og íbúar hvattir til að taka þátt í daglegu lífi. Öryggi, hlýja og traust eru mikilvægir þættir í lífsgæðum íbúa sem flytja á hjúkrunarheimili og byggir á þekkingu starfsfólks á því hvernig „heimili að heiman“ er skapað. Leitast er við að tengja hjúkrunarheimilin við samfélagið í kring með þjónustumiðstöð og vera hluti af lífsgæðakjarna. Þessi hugmyndafræði Hrafnistu er hjartað í starfseminni og skapar jákvæða og hlýja upplifun og menningu.
Uppbyggingaráætlunin er í stöðugri þróun og við viljum heyra skoðanir og hugmyndir annarra.